Skoðun

Á alþjóðadegi læsis

Illugi Gunnarsson skrifar
Í dag er alþjóðadagur læsis. Samfara auknu læsi aukast möguleikar barna um allan heim á því að mennta sig og þar með bæta lífskjör sín. Um leið og læsi er lykill að innihaldsríku lífi, þá veitir það börnum möguleika á því að virkja hæfileika sína og láta drauma rætast. Börn hinna ríku Vesturlandabúa sem og fátæk börn í þróunarlöndunum eiga það öll sammerkt að læsi er forsenda þess að þau geti spjarað sig. Það er því ekki að furða að UNESCO skuli hafa allt frá árinu 1965 tileinkað þennan dag læsi. Í yfirlýsingu UNESCO segir að læsi sé grunnlífsleikni, kjarni alls náms og varði því alla.

Þjóðarsáttmáli um læsi

Þessa dagana eru sveitafélögin, sem bera ábyrgð á rekstri grunnskólanna, og mennta- og menningamálaráðuneytið að undirrita samninga um 5 ára átak til að efla læsi. Markmiðið er að börnin okkar geti lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Öllum má vera ljóst mikilvægi þessa. Um 99% af krökkunum sem luku grunnskóla í vor sem leið, skráðu sig til náms í framhaldsskóla.

Enginn þarf því að efast um að börnin okkar skilji ekki mikilvægi náms. En möguleikar þeirra barna sem ekki geta lesið sér til gagns á því að ráða við námið eru mjög skertir. 30% drengja eru í slíkri stöðu við lok grunnskóla og 12% stúlkna. Líkurnar á því að þau börn heltist úr lestinni er því meiri en minni og tap þeirra og samfélagsins verður mikið.

Jöfn tækifæri

Undirtónn Þjóðarsáttmálans um læsi, sem verður undirritaður af ríki, sveitarfélögum og Heimili og skóla, er sá að börnin okkar eiga að búa að sömu tækifærum í lífinu við lok grunnskólagöngunnar, óháð efnahag eða félagslegri stöðu foreldra þeirra. Erlendar rannsóknir sýna þannig að ekki verður um villst að þeir einstaklingar sem ekki geta lesið sér til gagns standa mun verr að vígi en þeir sem það geta. Það er því okkar verkefni, foreldra, kennara, sveitarfélaga og ríkis, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að börnin okkar verði læs, annað er ekki boðlegt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×