Fótbolti

Wales fyrir ofan England á heimslistanum í fyrsta sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale er á leið á stórmót.
Gareth Bale er á leið á stórmót. vísir/getty
Velska karlalandsliðið í fótbolta er í góðum gír þessa dagana, en liðið heldur níunda sætinu á nýjum heimslista FIFA sem birtur var í morgun.

Wales í fyrsta sinn í sögunni fyrir ofan stóra bróður England á listanum, en enska liðið fellur um tvö sæti í það tíunda.

Wales er því efsta breska þjóðin á nýja listanum en upprisa liðsins hefur verið mikil undanfarin ár. Það gekk í gegnum erfiða tíma og var um tíma árið 2011 í 117. sæti listans.

Upprisa velska liðsins er svipuð og hjá strákunum okkar, en líkt og okkar menn er Wales á toppi síns riðils með fimm stiga forskot á þriðja sætið.

Gareth Bale, stórstjarna Wales og leikmaður Real Madrid, er því líklega á leið á stórmót. Það er eitthvað sem besta knattspyrnumanni Wales frá upphafi, Ryan Giggs, tókst aldrei að gera.

Wales á útileik gegn Kýpur í dag, en Kýpverjar eru með níu stig í B-riðli, fimm stigum á eftir Wales líkt og Ísrael. Sigur í kvöld færir Wales enn nær sínu fyrsta stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×