„Já, við vorum algerlega í lausu lofti,“ segir Guðrún í samtali við Vísi. En hún útskýrir svo að verið sé að byggja hótel á reitnum við hliðina. „Það kemur aðeins inná torgið. Og þess vegna þurftum við að flytja okkur. Fórum reyndar ekki nema nokkra metra en svo þurfum við að flytja okkur aftur þegar búið er að flytja spennustöðina sem er þarna á reitnum líka.“
Hótelframkvæmdir eru um alla borg og Bæjarins bestu fara ekki varhluta af því. En, ekki stendur þó til að flytja vagninn langt. Þegar framkvæmdum verður vagninum fundinn endanlegur staður á torginu. „En, við ætlum aðeins að hreyfa okkur fram og til baka meðan þessar framkvæmdir eru,“ segir Guðrún sem er eigandi fyrirtækisins og hefur rekið það nú í um þrjátíu ár. Bæjarins bestu rekur sex staði en sá þekktasti, við Tryggvagötuna, er elstur. „Við verðum áttatíu ára eftir tvö ár. Þá verða vonandi allar framkvæmdir búnar þarna á þessu torgi svo við getum haldið uppá það með pompi og prakt.“

Guðrún segir ekki nokkur lifandi vegur að telja viðskiptavini, hún gerði þá ekki mikið annað, en þarna er að jafnaði löng röð. „Það er misjafnt hversu mikið selst og við teljum ekki pylsur í stykkjatali heldur kílóavís. Það er allur gangur á því en það er gerbreytt umhverfi í dag frá því sem var,“ segir Guðrún spurðu um hvort ferðamannasprengjan á Íslandi hafi ekki haft breytingar í för með sér fyrir hana og reksturinn. „Kannski það sem maður finnur fyrst og fremst fyrir er hversu mikill túrismi er hér á veturna.“
Þó pylsuvagninn hafi verið í lausu lofti í gærkvöldi, þá þurfa aðdáendur og sannir pylsuvinir ekki að hafa þungar áhyggjur. Staðurinn opnaði nú klukkan tíu.