Haukur var næststigahæstur í íslenska liðinu á mótinu með 12,8 stig en einungis Jón Arnór Stefánsson skoraði fleiri stig að meðaltali í leik, eða 13,6.
Haukur var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna á EM en 42 af 64 stigum hans á mótinu komu úr þriggja stiga skotum. Fjórtán af stigunum 64 komu með skotum inni í teig og þá gerði Haukur átta stig úr vítaskotum.
Þriggja stiga nýting hans var einnig til mikillar fyrirmyndar en Haukur hitti úr 56% þriggja stiga skota sinna á mótinu sem er frábær tölfræði.
Aðeins fimm leikmenn voru með betri þriggja stiga nýtingu í riðlakeppninni en Haukur (þ.e. af þeim leikmönnum sem tóku a.m.k. tíu skot fyrir utan þriggja stiga línuna).
Rússinn Vitaly Fridzon var með bestu þriggja stiga nýtinguna en 65,2% skota hans fyrir utan þriggja stiga línuna rötuðu ofan í körfuna. Spánverjinn Pau Ribas og Hollendingurinn Charlon Kloof komu næstir með 61,1% nýtingu.
Annar Íslendingur, Logi Gunnarsson, komst einnig inn á lista yfir þá 20 leikmenn sem voru með bestu þriggja stiga nýtinguna. Njarðvíkingurinn er í 18. sæti en hann setti niður 47,4% þriggja stiga skota sinna.
Besta þriggja stiga nýtingin á mótinu:
1. Vitaly Fridzon (Rússland) - 15/23=65,2%
2. Pau Ribas (Spánn) - 11/18=61,1%
3. Charlon Kloof (Holland) - 11/18=61,1%
4. Nick Calathes (Grikkland) - 6/10=60%
5. Krunoslav Simon (Króatía) - 12/21=57,1%
6. Haukur Helgi Pálsson (Ísland) - 14/25=56,0%
7. Nikola Kalinic (Serbía) - 6/11=54,5%
8. Oleksandr Lypovyy (Úkraína) - 7/13=53,8%
9. Jonas Maciulis (Litháen) - 7/13=53,8%
10. Klemen Prepelic (Slóvenía) - 10/19=52,6%
