Viðræður eru hafnar milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Útlendingastofnunar um viðlíka samning um aðstoð við hælisleitendur og stofnunin hefur gert bæði við Reykjanesbæ og Reykjavík. Málið var tekið fyrir á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar á föstudag.

Árið verður metár í fjölda hælisumsókna og því hefur Útlendingastofnun þurft að leita að hentugu húsnæði til þess að hýsa fólk. Fjöldi staða hefur verið skoðaður í því ljósi, til dæmis St. Jósefsspítali í Hafnarfirði sem stendur auður og hefur gert í mörg ár.
Skúli Á. Sigurðsson, lögfræðingur Útlendingastofnunar, segir fólk af ýmsum þjóðernum búa nú þegar í Hafnarfirði. „Eins og er búa þarna um 50 hælisleitendur. þar á meðal eru um tíu fjölskyldur með börn sem búa á hæð ásamt einstæðum konum. Á annarri hæð eru einhleypir karlmenn og ekki er gengt milli hæðanna,“ segir Skúli. Fólkið sé héðan og þaðan úr heiminum.