FH-ingar tryggðu sér sem kunnugt er sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil eftir 2-1 sigur á Fjölni í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í gær.
Gleðin var mikil í Hafnarfirðinum og hvergi meir en á heimili Jóns Rúnars Halldórssonar, formanns knattspyrnudeildar FH.
Pepsi-mörkin voru með beina útsendingu frá heimili Jóns Rúnars í þætti gærkvöldsins þar sem Svava Kristín Gretarsdóttir ræddi við sigurreifa FH-inga.
„Það sést á mér að mér líður ágætlega,“ sagði Jón Rúnar á meðan sonur hans, Jón Ragnar, stjórnaði fjöldasöng á laginu Thank You með Diktu. Á píanóinu var svo enginn annar en söngvari Diktu og læknir FH-liðsins, Haukur Heiðar Hauksson.
Jón Rúnar er ekki sá rólegasti á meðan á leikjum FH stendur og hann viðurkennir að það hafi farið um sig þegar Fjölnir jafnaði í gær.
„Ég vil ekki segja það í sjónvarpi,“ sagði Jón Rúnar aðspurður hvað hefði farið í gegnum huga hans þegar Fjölnismaðurinn Kennie Chopart stýrði boltanum í netið á 69. mínútu.
Jón Rúnar segir að Heimir Guðjónsson verði áfram við stjórnvölinn hjá FH-liðinu.
„Heimir verður áfram,“ sagði Jón Rúnar en Heimir hefur tekið þátt í að vinna alla sjö Íslandsmeistaratitlana sem FH hefur unnið, tvo sem leikmaður, einn sem aðstoðarþjálfari og fjóra sem aðalþjálfari.
Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.
