Útlendingastofnun vinnur nú að því í samráði við Hafnarfjarðarbæ að koma tólf börnum, sem eru með stöðu hælisleitenda, í grunnskóla. Stofnunin sótti í dag um skólavist fyrir fimm börn í Reykjavík, og þar af hafa þrjú þeirra fengið samþykki og hefja skólagöngu sína í næstu viku.
„Það eru tólf börn búsett í Hafnarfjarðarbæ en eru í þjónustu Útlendingastofnunar. Það standa yfir viðræður við Hafnarfjarðarbæ um hvernig staðið verði að skólagöngu þeirra, þannig að það er verið að vinna að því að koma málunum í samt lag. En þetta er eitthvað sem er að gerast í dag og á morgun,“ segir Skúli Á. Sigurðsson, verkefnastjóri hælissviðs hjá Útlendingastofnun.
Fjallað var um systkinin þrjú, sem nú hafa fengið inni í grunnskóla, í Fréttablaðinu í dag. Þau hafa verið búsett hér á landi frá því í júní en Útlendingastofnun lét hjá líða að sækja fyrir þau um skólavist, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir umboðsmanns barna og lögmanns fjölskyldu þeirra.
Sjá einnig: Systkinin komin inn í grunnskóla Skúli segir að unnið sé að því að koma málunum í eðlilegra horf. Mál sem þessi séu nú í fyrsta sinn á borði Útlendingastofnunar.
„Slík mál hafa alltaf farið til sveitarfélaganna. Við teljum okkur ekki þurfa að breyta okkar verklagsreglum, því við erum að gera þetta í fyrsta skipti, heldur frekar koma upp þessu verklagi. Hingað til höfum við lagt áherslu á að finna fólki þak yfir höfuðið og koma því í grunnþjónustu,“ segir hann. Núna hins vegar sé fjöldi slíkra mála orðinn umtalsvert meiri en áður.
„Það varð sprenging í ágúst mánuði og fram í september en núna vinnum við að koma hlutunum í betra ferli,“ segir Skúli.
Sjá einnig: Fjölmargir vilja rétta fjölskyldunni hjálparhöndReglum breytt í fyrra Börn hælisleitenda hafa alltaf átt rétt á að ganga í grunnskóla landins, þrátt fyrir kennitöluleysi, samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Sú hefur hins vegar ekki alltaf verið raunin með börn á leikskólaaldri, en í nóvember í fyrra varð sú breyting að öll börn ættu rétt á að ganga í leikskóla; með kennitölu eða ekki.
Alls eru sjö leikskólabörn í Reykjavík án kennitölu, fjögur þeirra eru komin inn í leikskóla, en skólavist hinna þriggja í ferli, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.