Körfubolti

Hlynur mikilvægur í frábærum endaspretti Sundsvall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur skoraði lykilkörfu undir lok leiksins.
Hlynur skoraði lykilkörfu undir lok leiksins. vísir/valli
Hlynur Bæringsson reyndist Sundsvall Dragons vel á lokasprettinum gegn ecoÖrebro í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Þegar ein og hálf mínúta var eftir var staðan 89-83 fyrir ecoÖrebro en þá tók við frábær endasprettur hjá Sundsvall. Drekarnir skoruðu næstu fimm stig og minnkuðu muninn í eitt stig, 89-88.

Heimamenn juku muninn í tvö stig af vítalínunni en í næstu sókn jafnaði Hlynur metin og fékk auk þess vítaskot sem hann setti niður og kom Sundsvall einu stigi yfir, 90-91.

EcoÖrebro klúðraði boltanum í næstu sókn og Drekarnir nýttu skotklukkuna vel í síðustu sókn sinni. Þegar sjö sekúndur voru eftir tók Hlynur skot sem geigaði en Charles Barton tók sóknarfrákastið og var sendur á vítalínuna.

Hann nýtti bæði vítin og kom Sundsvall þremur stigum yfir, 90-93. Heimamenn skoruðu eitt stig af vítalínunni áður en yfir lauk en það breytti engu um úrslitin. Lokatölur 91-93, Sundsvall í vil.

Hlynur skoraði 14 stig og tók sjö fráköst fyrir Drekana í kvöld en liðið er í 3. sæti deildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×