Skoðun

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun

Eiríkur Hjálmarsson skrifar

Allt frá því orkan fór að streyma frá Hellisheiðarvirkjun, haustið 2006, hefur fólk getað sótt hana heim og séð með eigin augum hvernig jarðhitanýtingin fer fram og í hvað þessi mikla orka undir niðri nýtist okkur. Jarðhitasýning þar sem þessum upplýsingum og þekkingu er miðlað var nefnilega hluti af virkjuninni frá upphafi. Þessi vinsæla sýning, sem kostaði talsvert fé að setja upp, var til umfjöllunar hér í blaðinu í gær og það er rétt að halda nokkrum atriðum til haga í umræðu um hana.



Þegar eigum fyrirtækis í opinberri eigu er ráðstafað til einkaaðila þarf að vanda sig og ljóst þarf að vera að afnotin eru tímabundin. Eftir fjögur ár í rekstri OR var leiga á sýningarrýminu og því sem í því var boðið út til tiltekins tíma með hugsanlegri tímabundinni framlengingu. Í framhaldinu var samið við hæstbjóðanda og framlengingarákvæðið var nýtt.



OR hefur kostað endurbætur á sýningunni á leigutímanum og bætt við hana upplýsingum, einkum sem snúa að hitaveitunni og heitavatnsframleiðslunni í Hellisheiðarvirkjun. Frá upphafi leigutímans var ljóst að hann tæki enda og hvenær það yrði. Leigjendum var því ekki sagt upp þegar Orka náttúrunnar tók við rekstrinum nú á dögunum heldur rann leigutíminn út á tilsettum, umsömdum tíma, sem var löngu fyrirséður.



Gert var samkomulag milli leigjenda og leigusala um uppgjör vegna loka leigusamningsins. Það mátti skilja af greininni hér í blaðinu í gær að svo væri ekki og að réttur leigjandans hafi verið meiri en kveðið var á um í samningum. Það er ekki rétt.




Skoðun

Sjá meira


×