Fótbolti

FIFA setur Blatter, Platini og Valcke alla í 90 daga bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blatter, Platini og Valcke.
Blatter, Platini og Valcke. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur leyst þá Sepp Blatter, forseta FIFA, Jerome Valcke, aðalritara FIFA og Michel Platini, varaformann FIFA, alla frá störfum í 90 daga en þeir hafa allir verið bendlaðir við spillingarmál innan knattspyrnuforystunnar.

Chung Mong-joon, fyrrum varaforseti FIFA, hefur einnig verið settur í sex ára bann og þarf að greiða hundrað þúsund svissneska franka í sekt eða um þrettán milljónir íslenskra króna.

Siðanefnd sambandsins ákvað þessar refsingar en þeir Blatter, Valcke og Platini, sem er einnig forseti UEFA, sæta allir rannsókn vegna spillingarmála innan FIFA en þeir eiga að hafa þegið mútugreiðslur. BBC segir meðal annars frá þessu.

„Dómstóll siðnefndar FIFA, undir stjórn Hans‑Joachim Eckert, hefur vikið forseta FIFA Joseph S. Blatter, varforseta FIFA og forseta UEFA, Michel Platini og aðalritara FIFA, Jerome Valcke, tímabundið frá störfum í 90 daga. Það er möguleiki á lengra banni hjá hverjum og einum en það verður þó aldrei lengra en 45 dagar til viðbótar," segir í yfirlýsingu frá FIFA.  

Jerome Valcke hafði áður verið leystur frá störfum af FIFA en siðanefnd sambandsins ákvað að setja hina tvo í bann eftir að svissneskur saksóknari hóf rannsókn á því hvort þeir Blatter og Platini hafi þegið mútugreiðslur úr sjóðum Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Blatter, Platini og Valcke mega ekki koma nálægt knattspyrnumálum á þessum 90 dögum sem er sérstaklega óheppilegt fyrir Michel Platini sem þarf á þeim tíma að tilkynna framboð sitt til forseta FIFA.

Allir þrír halda fram sakleysi sínum í málinu en risarannsókn hefur verið í gangi síðustu mánuði á spillingarmálum innan FIFA sem og á því hvort ólöglega hafi verið staðið að því þegar FIFA ákvað hvar næstu tvær heimsmeistarakeppnir fara fram.


Tengdar fréttir

Blatter settur í 90 daga bann

Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur verið settur í 90 daga bann af siðanefnd FIFA, samkvæmt Klaus Stoehlker, fyrrverandi ráðgjafa og vinar Blatters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×