Landsliðskonan Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur ákveðið að spila með Grindavík í Domino‘ s deild kvenna í kröfubolta í vetur en Grindvíkingar tilkynntu um þetta á fésbókarsíðu sinni í kvöld.
Þetta er gríðarlegur liðsstyrkir fyrir Grindavíkurliðið sem er nú ekki árennilegt enda hafa margir sterkir leikmenn gengið til liðs við liðið í haust.
Sigrún Sjöfn hefur verið í hópi bestu körfuboltakvenna síðustu ár og fastamaður í íslenska landsliðinu en í fyrravetur lék hún með sænska liðinu Norrköping.
Sigrún var ekki áfram hjá sænska liðinu og hefur í haust spilað með uppeldisfélagi sínu Skallagrími. Sigrún var meðal annars með 31,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum Borgarnesliðsins í 1. deildinni.
„Það er okkur Grindvíkingum gífurleg ánægja að kynna til leiks Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur. Það vita allir sem fylgjast með körfubolta hér á landi hversu öflug hún er. Þetta teljum við vera loka púslið í kvennalið okkar og stefnan ætti að teljast nokkuð augljós. Við ætlum að gera atlögu að öllum þeim titlum sem í boði eru. Við bjóðum hana velkomna til leiks," segir á fésbókarsíðu Grindavíkur sem og á heimasíðu Grindavíkur.
Sigrún Sjöfn er 27 ára gömul en hún steig sín fyrstu spor með Haukum í efstu deild en hefur einnig spilað með Hamar og KR í efstu deild. Hún varð tvisvar Íslandsmeistari með Haukum og spilaði einnig til úrslita um titilinn sem leikmaður Hamars og KR.
Grindavík vann stórsigur á Haukum í fyrsta leik sínum í Domino´s deildinni þrátt fyrir að leika án nokkurra lykilmanna og koma Sigrúnar þýðir að Grindavík ætlar sér að berjast um titlana í kvennakörfunni í vetur.
