Þetta kemur fram í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur sem birtist í Morgunblaðinu í morgun þar sem hún reynir að sjá fyrir hvernig Landsfundur Sjálfstæðismanna verður um helgina. Þar kemur jafnframt fram að Hanna Birna hafi þá sóst eftir því hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hvort hún ætti kost á góðri stöðu í öðru landi. Hanna Birna kom að lokuðum dyrum hjá Gunnari Braga. „Formennska í utanríkismálanefnd nú í september hafi því verið eins konar dúsa handa Hönnu Birnu, á meðan hún tekur ákvarðanir um hver hennar næstu skref verða,“ segir í fréttaskýringunni, sem er undir fyrirsögninni: „Ekki landsfundur deilna og átaka“.

Þetta hefur Agnes eftir ónafngreindum heimildamanni. Í fréttaskýringunni kemur fram að búist er við fremur átakalausum Landsfundi en þeim mun meiri áhugi var meðal viðmælenda Agnesar á stöðu ýmissa einstaklinga, ekki síst Hönnu Birnu. Það vekur athygli að strax eftir að Agnes slær þessu fram er bein tilvitnun í Hönnu Birnu, sem segir stjórnmálin ástríða og hana langi fátt meira en að berjast fyrir hugsjónum frelsis og tækifæra. „Þetta geri ég nú á hverjum degi á Alþingi en hef enga ákvörðun tekið um það hvort ég muni gera það til fimmtugs, sextugs eða jafnvel sjötugs. Sú ákvörðun kemur síðar,“ segir Hanna Birna í samtali við Agnesi. Sem þó spyr hana ekki nánar út í það sem hún hefur eftir hinum ónafngreinda heimildamanni.
Vísir hefur ítrekað reynt að ná tali af Hönnu Birnu til að spyrja hana nánar út í þessi atriði, sem Agnes slær fram, en án árangurs. Fyrst var ekki svarað, þá var á tali um hríð og þá hringdi út. Hvort það felist einhver sögn í því að Hanna Birna vill ekki svara fjölmiðlum, skal ósagt látið.

Samkvæmt heimildum Vísis nýtur Hanna Birna lítils fylgis innan flokks og því síður utan. Hún er sitjandi varaformaður, og hafði gefið það út að hún hygðist sækjast eftir því að gegna því starfi áfram, „að öllu óbreyttu“. Líkast til hefur hún komist að því að hún nyti ekki fylgis sem skyldi og strax í kjölfar þess að hún dró framboð sitt til baka kom Ólöf Nordal fram á sjónarsviðið og lýsti því yfir að hún gæfi kost á sér. Virðist sem um hannaða atburðarás hafi verið að ræða, þó Ólöf hafi tekið það fram að ákvörðun sín hefði ekkert að gera með stöðu Hönnu Birnu.
Utanríkisþjónustan notuð til að þétta raðirnar
Lengi hefur það verið nefnt að utanríkisþjónustan hafi verið (mis)notuð til að koma að hollum flokksmönnum sem komnir eru útí horn. Þetta hefur verið sagt liður í samtryggingarkerfi gamla fjórflokksins og hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki síst verið duglegur við þetta.
