Franz Beckenbauer og formaður spænska knattspyrnusambandsins eru tvö nýjustu nöfnin sem hafa flækst í rannsókn Alþjóðaknattspyrnusambandsins á spillingu meðal háttsettra starfsmanna sambandsins.
Sepp Blatter, forseti FIFA og Michel Platini, forseti UEFA, hafa báðir verið settir í 90 daga bann vegna peningagreiðslu sem fór þeirra á milli en þeir hafa báðir áfrýjað þeirri niðurstöðu.
Framkvæmdastjórinn Jerome Valcke hefur einnig verið settur í bann vegna misnotkunar á fjármunum sambandsins.
Franz Beckenbauer og Angel Maria Villar Llona, formaður spænska knattspyrnusambandsins, eru nú báðir komnir inn á borð hjá rannsóknarnefndinni og þetta spillingarmál verður bara stærra og sóðalegra með hverjum deginum.
Þeir Beckenbauer og Villar voru á sínum tíma ekki tilbúnir að aðstoða við rannsókn á því hvernig Rússland og Katar fengu úthlutað næstu tveimur heimsmeistarakeppnum.
Beckenbauer var í framkvæmdanefndinni sem kaus um hvar HM 2018 og HM 2022 áttu að fara fram og hann var einnig í formaður skipulagsnefndar HM 2006 í Þýskalandi en Þjóðverjar voru sakaðir um það í síðustu viku að hafa keypt atkvæði í baráttunni um að fá að halda þá keppni.
Angel Maria Villar Llona hefur verið formaður spænska sambandsins frá 1988 og er annar valdamesti maður innan UEFA á eftir forsetanum Michel Platini.
