Borgarlögmaður vísar í grein á heimasíðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um „uggvænlega þróun“ í skipulagsmálum borgarinnar.
„Í niðurlagi greinarinnar skrifar ráðherra „[f]ornleifar sem fundust á lóðinni við hlið Iðnaðarbankahússins verða friðaðar sem og hafnargarðurinn við hinn enda Lækjargötunnar“,“ bendir borgarlögmaður á.

Þá segir borgarlögmaður Sigmund Davíð hafa komið að málinu á fyrri stigum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hafi upplýsti að forsætisráðherra hefði á fundi í ráðuneytinu í sumar fengið kynningu á málinu frá stofnuninni. Um það leyti hafi afstaða Minjastofnunar breyst úr því hafnargarðinn ætti að vernda að hluta í það að ætti að vernda garðinn að fullu.
„Að því virtu að ráðherra hefur áður tjáð skoðun sína á friðun hafnargarðsins með afgerandi hætti og átt aðkomu að málinu á fyrri stigum leiða öll rök til þess að draga megi í efa stjórnsýslulegt hæfi hans til að taka nú afstöðu til málsins með vísan til hæfisreglna stjórnsýsluréttarins,“ segir í umsögn borgarlögmanns.
Í umsögn borgarlögmanns er síðan ákvörðun Minjastofnunar um friðlýsingu hafnargarðsins gagnrýnd. Handhafi lóðarinnar Austurbakka 2 hafi kynnt metnaðarfull áform um hvernig hafnargarðurinn verði varðveittur að hluta og gerður almenningi sýnilegur. Friðlýsing sé íþyngjandi og ónauðsynleg.
„Það er því von Reykjavíkurborgar að ná megi samkomulagi um ásættanlega lausn í málinu sem ekki hefði í för með sér verulegt tjón fyrir þá aðila sem eiga réttindi á lóðinni og stórkostlegan kostnað fyrir ríkissjóð.“
Ekki fengust svör við því í forsætisráðuneytinu í gær hvernig ráðherra bregst við kröfu um að víkja í málinu.