Körfubolti

Axel kom Kanínunum í framlengingu og þar lönduðu þær sigrinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Kárason.
Axel Kárason. vísir/andri marinó
Íslendingaliðið Svendborg Rabbits endaði tveggja leikja taphrinu sína í kvöld í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta með dramatískum útisigri á Randers Cimbria eftir framlengingu.

Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, er þjálfari Svendborg Rabbits og með liðinu spilar landsliðsmaðurinn Axel Kárason.

Axel Kárason kom leiknum í framlengingu og þar var Svendborg Rabbits á endanum með þremur stigum, 97-94.

Axel Kárason var með 8 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar í leiknum.

Svendborg Rabbits liðið byrjaði betur og var 24-21 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Liðið átti hinsvegar slakan annan leikhluta sem Randers-menn unnu 28-19 og voru því sex stigum yfir í hálfleik, 49-43.  Axel Kárason var með 4 stig og 3 fráköst í fyrri hálfleiknum.

Það er ljóst að hálfleiksræða Craig Pedersen hefur verið vel heppnuð því þriðji leikhlutinn var hinsvegar frábær hjá Svendborg Rabbits.

Svendborg Rabbits naði mest átta stiga forskoti í leikhlutanum, vann þriðja leikhlutann 28-17 og var því með fimm stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 71-66.

Leikmenn Randers Cimbria skoruðu 10 af fyrstu 14 stigum fjórða leikhlutans og komust aftur yfir um hann miðjan.

Axel Kárason jafnaði metin í 83-83 þegar 50 sekúndur voru eftir en hann náði þá sóknarfrákasti eftir þriggja stiga skot. Liðin náðu ekki að nýta lokasóknir sínar og því þurfti að framlengja leikinn.

Svendborg Rabbits komst sex stigum yfir í framlengingunni en leikmenn Randers Cimbria náðu að jafna 21 sekúndur fyrir leikslok. Það var samt tími fyrir Claus Magaard að smella niður þristi og tryggja Kanínunum sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×