Mynd af norskum manni sem hafði verið í gíslingu Íslamska ríkisins var í nýjasta tölublaði tímarits samtakanna sem gefið var út í dag. Á myndinni virðist Ole Johan Grimsgaard-Ofstad hafa verið skotinn til bana, en utanríkisráðuneyti Noregs vinnur nú að því að staðfesta hvort að svo sé.
Einnig var birt mynd sem virtist vera af líki kínversks manns sem einnig var í haldi samtakanna. Við myndirnar stóð að þessir menn hefðu verið yfirgefnir af stjórnvöldum sínum.
Sjá einnig: Birtu mynd af sprengjunni sem sögð er hafa grandað flugvélinni.
Í samtali við VG sagði Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, að utanríkisráðuneytið reyni nú að komast að því hvort að Ole Johan hafi verið tekinn af lífi, en tímaritið var birt á internetinu eftir hádegi í dag.
Þá hefur fjölskylda Ole Johan ekki viljað tjá sig um fregnirnar.
Sjá einnig: Fjölskylda norska gíslsins segist ekki hafa efni á að greiða lausnargjaldið.
