Körfubolti

NBA: Kobe nálægt þrennu í sigri Lakers | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/EPA
Kobe Bryant og félagar í Los Angeles Lakers sluppu við verstu tíu leikja byrjun í sögu félagsins þegar liðinu tókst að vinna Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Gömlu stórveldin áttu annars góðan dag því Boston Celtics vann Oklahoma City og New York vann New Orleans.

Kobe Bryant var með 17 stig, 9 stoðsendingar og 8 fráköst þegar Los Angeles Lakers vann 97-85 heimasigur á Detroit Pistons og fagnaði þar með öðrum sigri sínum á tímabili. Tap hefði þýtt verstu tíu leikja byrjun Lakers frá upphafi. Bryant spilaði í 37 mínútur í leiknum og sýndi á köflum gömul tilþrif. Hann hitti úr 6 af 19 skotum sínum.

Jordan Clarkson skoraði 17 stig fyrir Lakers-liðið sem endaði þarna fjögurra leikja taphrinu. Liðið hefur tapað 8 af fyrstu 10 leikjum en er samt búið að vinna einum leik meira en á sama tíma í fyrra. Andre Drummond var með 17 stig og 17 fráköst hjá Detroit Pistons.

Marcus Smart var með 26 stig þegar Boston Celtics vann 100-85 sigur á Oklahoma City Thunder. Isaiah Thomas skoraði 20 stig fyrir Boston, Avery Bradley var með 14 stig og Jared Sullinger bætti við 8 stigum og 15 fráköstum í þriðja sigri Boston í síðustu fjórum leikjum. Russell Westbrook skoraði 27 stig en hitti aðeins úr 5 af 20 skotum sínum. Serge Ibaka skoraði 17 stig en Thunder-liðið hefur ekki skorað minna eða hitt verr á öllu tímabilinu.

Carmelo Anthony var með 29 stig og 13 fráköst þegar New York Knicks vann 95-87 sigur á New Orleans Pelicans. Langston Galloway skoraði 15 stig og Kevin Seraphin var með 12 stig. Nýliðinn Kristaps Porzingis skoraði 10 stig í leiknum en hitti aðeins út 4 af 15 skotum sínum. Anthony Davis var atkvæðamestur hjá Pelíkönunum með 36 stig og 11 fráköst.

Nicolas Batum skoraði 33 stig og Al Jefferson bætti við 29 stigum þegar Charlotte Hornets vann 106-94 sigur á Portland Trail Blazers. Batum spilaði með Portland frá 2008 til 2015. Damian Lilliard skoraði 23 stig fyrir Portland.

Jeff Green skoraði 21 stig og Mike Conley var með 20 stig og 6 stoðsendingar þegar Memphis Grizzlies vann 114-106 sigur á Minnesota Timberwolves. Þetta var annar sigur Memphis í röð í kjölfarið á fjögurra leikja taphrinu. Zach Lavine skoraði 25 stig fyrir Minnesota-liðið sem hefur tapað öllum fimm heimaleikjum tímabilsins.

Derrick Favors skoraði 23 stig Rodney Hood var með 20 stig þegar Utah Jazz vann Atlanta Hawks 97-96. Paul Millsap skoraði 28 stig fyrir Atlanta Hawks sem tapaði í þriðja sinn í fjórum leikjum.

DeMarcus Cousins skoraði 10 af 36 stigum sínum í fjórða leikhluta og náði auk þess 10 fráköstum þegar Sacramento Kings vann 107-101 sigur á Toronto Raptors. Þetta var þriðji sigur Sacramento Kings í röð.

Öll úrslitin úr NBA-deildinni í nótt:

New York Knicks - New Orleans Pelicans  95-87

Minnesota Timberwolves - Memphis Grizzlies 106-114

Charlotte Hornets - Portland Trail Blazers 106-94

Atlanta Hawks - Utah Jazz 96-97

Oklahoma City Thunder - Boston Celtics 85-100

Sacramento Kings - Toronto Raptors 107-101

Los Angeles Lakers - Detroit Pistons 97-85

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×