Körfubolti

Missti fót í bílslysi 2013 en spilaði körfuboltaleik í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Natasa Kovacevic.
Natasa Kovacevic. Vísir/EPA
Serbneska körfuboltakonan Natasa Kovacevic snéri aftur inn á körfuboltavöllinn í gærkvöldi tveimur árum eftir að hún missti fót í bílslysi.

Natasa Kovacevic, þá bara 19 ára gömul, var ein efnilegasta körfuboltakona Serbíu þegar hún lenti í alvarlegu bílslysi árið 2013. Hún var þá á leið í útileik með liðsfélögum sínum í ungverska liðinu UNI Györ.

Þjálfari og framkvæmdastjóri liðsins létust í slysinu og það þurfti að taka vinstri fót Kovacevic af fyrir neðan hné.

Natasa Kovacevic er 188 sentímetra framherji sem vann brons á EM með serbneska 18 ára landsliðinu árið 2012.

Kovacevic var ekki tilbúin að gefa upp vonina um að snúa aftur á körfuboltavöllinn og hefur unnið markvisst að því að upplifa þá stund.

Saga hennar hefur fengið mikla athygli í evrópska körfuboltaheiminum og var hún meðal annars valin sérstakur sendiherra FIBA Europe meðal ungs fólks árið 2014.

Kovacevic varð síðan í gær fyrsti fatlaðri evrópski körfuboltaleikmaðurinn sem spilar með atvinnumannaliði þegar hún kom inná völlinn með Rauðu Stjörnunni frá Belgrad.

Natasa Kovacevic spilaði í 15 mínútur í sínum fyrsta leik sem lið hennar vann 78-47. Kovacevic var með 5 stig, 3 fráköst, 3 stolna bolta og 1 stoðsendingu á þessum fimmtán mínútum.

Natasa Kovacevic.Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×