Snjómokstur á höfuðborgarsvæðinu gengur vel en nú eru um 20 vélar að vinnu við að ryðja snó úr íbúðargötum í Reykjavík. Reikna má með að verkið klárist seinnipartinn á morgun ef allt gengur að óskum.
„Mokstur hefur gengið vonum framar,“ segir Halldór Þórhallsson verkstjóri hjá vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. „Nú eru allar vélar, um 20, í því að ryðja íbúðargöturnar.“
Búið var að ryðja aðalleiðir um tíu í morgun en vegna mikillar ofankomu í nótt voru flestar götur á höfuðborgarsvæðinu illfærar, svo illfærar, að lögreglan varaði fólk við að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn bæri til.
Halldór reiknar með að búið verði að hreinsa allar götur Reykjavíkur seinnipartinn á morgun, gangi allt að óskum, en ekki er mikil snjókoma í kortunum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Sjaldan hefur snjóað jafn mikið á höfuðborgarsvæðinu en ekki hefur verið meiri snjódýpt, 32 sentimetrar, í Reykjavík á þessum árstíma síðan 1979.
Mokstur gengur vel á höfuðborgarsvæðinu

Tengdar fréttir

Sjaldan snjóað jafn mikið á höfuðborgarsvæðinu
Aðeins fimmtán sinnum frá árinu 1949 hefur mælst meiri snjókoma á einum sólahring.

Þungfært í íbúðargötum: Lögreglan varar fólk við að vera á ferðinni
"Fólk er víða í basli,“ segir varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.