Innlent

Flug­vél snúið til Kefla­víkur vegna bilunar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Fyrir utan Keflavíkurflugvöll.
Fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Vísir/Vilhelm

Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð á fimmta tímanum vegna flugvélar sem þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna tæknibilunar. Flugvélin lenti um tíu mínútur í fimm og engin slys urðu á fólki.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að flugvélin hafi verið á vegum Delta Airlines, og hún hafi verið á leið frá Dyflinni til New York.

Í framhaldinu verði vélinni ekið inn á stæði og þjónustuaðilar félagsins muni fara í að skoða vélina ásamt tækniaðilum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var um að ræða bilun í vinstri hreyfli vélarinnar.

Ríflega tvö hundruð manns hafi verið um borð í vélinni.

„Þau óskuðu eftir því að lenda í Keflavík, þar sem við erum nálægasti flugvöllur. Þetta gerist nokkrum sinnum í viku hjá okkur, hvort sem það eru tæknivandamál eða veikindi um borð.“

Við þessar aðstæður sé alltaf ákveðið viðbragð virkjað, þar sem unnið sé út frá upplýsingum frá viðkomandi flugfélagi.

Í þessu tilfelli hafi verið um að ræða farþegaflug, og þess vegna hafi litakóðinn verið rauður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×