McGregor er á leið til Las Vegas þar sem hann mun berjast við Jose Aldo um titilinn í fjaðurvigt en þetta sama kvöld mun Gunnar Nelson mæta Demian Maia í veltivigtarbardaga.
Sjá einnig: Sjáðu Gunnar glíma við McGregor
Þeir McGregor og Aldo áttu að berjast í Las Vegas í sumar en þá þurfti sá síðarnefndi að hætta við vegna meiðsla. McGregor vann þá bráðabirgðatitil en sá stóri verður í húfi þegar þeir mætast loks 12. desember.
„Á leiðinni á vesturströndina,“ skrifaði McGregor sem ætlar sér vitanlega að ná titlinum af Aldo. „Þar fer ég fyrir UFC 194 sem er 90-100 milljóna dollara virði. Þessi viðburður ásamt UFC 189 þýðir að ég hef aflað UFC nálægt 200 milljónum í tekjur.“
„Ég er ekki UFC-maður. Ég er UFC,“ bætti hann við.