Körfubolti

Jón Arnór mætir ósigraður á gamla heimavöllinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leik með Íslandi á Eurobasket.
Jón Arnór Stefánsson í leik með Íslandi á Eurobasket. Vísir/EPA

Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia reyna að halda sigurgöngu sinni áfram í kvöld þegar liðið heimsækir spænska liðið CAI Zaragoza í Evrópukeppninni.

Jón Arnór samdi við Valencia eftir Eurobasket í september og liðið hefur unnið alla þrettán leiki sína á tímabilinu, sjö í spænsku deildinni og sex í Evrópukeppninni.

Mótherji kvöldsins er Jón Arnóri vel kunnugur enda spilaði hann með CAI Zaragoza í þrjú tímabil frá 2011 til 2014. Hann mætir því aftur í Prins Felipe höllina í kvöld.

Jón Arnór átti flott tímabil með CAI Zaragoza liðinu og var einn af fyrirliðum þess á síðasta tímabili sínu. Hann ætti að fá flottar móttökur í kvöld.

Jón Arnór hefur verið í byrjunarliði Valencia í þremur af sex leikjum liðsins í Evrópukeppninni en hann er með 5,3 stig, 1,7 stoðsendingar og 1,2 stolinn bolta að meðaltali á 17,5 mínútum í leik.

Jón Arnór skoraði sex stig og stal þremur boltum í fyrri leiknum á móti hans gamla félagi en Valencia-liðið vann hann 87-68.

Valencia-liðið hefur þegar tryggt sér sæti í 32 liða úrslitunum en Jón Arnór og félegar eru með eina bestu vörnina í keppninni enda þeir aðeins fengið á sig 66,3 stig í leik til þessa.

CAI Zaragoza getur tryggt sig áfram með sigri en þarf þá einnig að treysta á það að Proximus Spirou Charleroi og SLUC Nancy tapi bæði.

Andreu Casadevall er nýr þjálfari CAI Zaragoza og stýrir liðinu í fyrsta sinn í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.30 að spænskum tíma eða klukkan 19.30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×