Fótbolti

Ronaldo: Samband mitt við Benitez er gott

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo segir eðlilegt að Rafael Benitez fá tíma til að aðlagast Real Madrid og gefur lítið fyrir gagnrýnisraddir sem hafa beinst að félaginu síðustu daga og vikur.

Real vann í gær 8-0 stórsigur á Malmö í Meistaradeild Evrópu og Ronaldo bætti met með því að skora alls ellefu mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann skoraði fjögur í gær.

Sjá einnig: Martröð fyrir Kára og félaga | Sjáið öll átta mörk Real Madrid

Gagnrýnisraddir heyrast þó enn í spænsku höfuðborginni eftir að Real mátti sætta sig við tap gegn erkifjendunum í Barcelona á heimavelli í síðasta mánuði auk þess sem að liðið var dæmt úr leik í bikarnum fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni.

Knattspyrnustjórinn Rafael Benitez, sem tók við Real Madrid í sumar, hefur verið gagnrýndur fyrir að láta Real Madrid spila of varnarsinnaða knattspyrnu og þá hefur verið margsinnis fullyrt að þeim Benitez og Ronaldo semji illa.

Hópur stuðningsmanna Real Madrid lét óánægju sína með Benitez í ljós með því að blístra á liðið í leiknum í gær en Ronaldo sagðist í viðtölum eftir leik ekki hafa tekið eftir því.

Sjá einnig: Benitez öruggur hjá Real Madrid í bili

„Ég veit ekki af hverju það ætti að vera eitthvað vandamál. Stuðningsmenn verða að fá að sýna þau viðbrögð sem þeir kjósa en þjálfarinn er að standa sig vel þrátt fyrir að vera enn að aðlagast Real Madrid. Þú verður að gefa honum tíma og að mínu mati er hann að standa sig vel.“

„Samband mitt við hann er gott og það sama á við um alla aðra leikmenn. Ég er með samning við Madrid og verð áfram,“ sagði hann enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×