Körfubolti

Enn einn sigur Golden State | Úrslitin í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekkert getur stöðvað sigurgöngu Golden State.
Ekkert getur stöðvað sigurgöngu Golden State. vísir/getty
Sigurganga Golden State Warriors í NBA-deildinni heldur áfram en í nótt bar liðið sigurorð af Brooklyn Nets á útivelli, 98-114.

Golden State hefur þar með unnið alla 22 leiki sína í deildinni í vetur sem er met.

Stephen Curry var stigahæstur í liði meistaranna með 28 stig en hann hitti úr fimm af níu þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Draymond Green kom næstur en hann daðraði við þrennuna með 22 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar.

Thaddeus Young skoraði 25 stig og tók 14 fráköst fyrir Brooklyn sem hefur aðeins unnið fimm af fyrstu 20 leikjum sínum.

Jeff Green tryggði Memphis Grizzlies sigur á Phoenix Suns, 95-93, með ótrúlegri flautukörfu sem má sjá hér að neðan.

Þetta var níundi sigur Memphis í síðustu 12 leikjum en liðið er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Spænski miðherjinn Marc Gasol var stigahæstur í liði Memphis með 22 stig en hjá Phoenix bar mest á Eric Bledsoe sem gerði 23 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Russell Westbrook var með þrennu (19 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar) þegar Oklahoma City Thunder vann þriggja stiga sigur, 98-95, á Sacramento Kings á heimavelli.

Kevin Durant, sem tapaði alls 10 boltum í leiknum, var mikilvægur á lokakaflanum en hann skoraði sex af síðustu átta stigum OKC. Durant endaði með 20 stig og 10 fráköst.

Rudy Gay skoraði 20 stig fyrir Sacramento sem er búið að tapa þremur leikjum í röð.

Úrslitin í nótt:

Brooklyn 98-114 Golden State

Memphis 95-93 Phoenix

Oklahoma 98-95 Sacramento

Washington 104-116 Dallas

Detroit 111-91 LA Lakers

Curry var öflugur í nótt Mögnuð sigurkarfa Green Wes Matthews setti niður 10 þrista
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×