Lögreglan verst allra fregna af málinu en bæði Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, neita að tjá sig um málið og vísa á lögreglustjórann Sigríði Björk Guðjónsdóttur.
Í skriflegu svari lögreglustjórans til Vísis á mánudag sagði að ekki væri hægt að veita upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna. Bent var á að ef grunur léki á um refsivert brot lögreglumanns færi ríkissaksóknari með slík mál. Vísir sendi Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara fyrirspurn vegna málsins á mánudag en svar hefur ekki borist.

Samkvæmt heimildum Vísis var málinu ekki vísað til ríkissaksóknara þegar ástæða þótti til að færa yfirmanninn til í starfi vegna gruns um leka. Í kringum hálft ár er liðið síðan sú ákvörðun var tekin en lögreglumaðurinn er enn við störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Brotahópar eða aðilar sem til rannsóknar eru geta haft mikinn hag af því að vera upplýstir um aðgerðir lögreglu, hvort sem aðgerðirnar beinast gegn þeim sjálfum eða samkeppnisaðilum þeirra. Hvatinn getur verið ýmis, en líklega mestur að komast upp með skipulögð brot.
Vísir hefur fjallað um verðmæti þeirra fíkniefna sem haldlögð hafa verið á undanförnum mánuðum. Verðmætin hlaupa á mörg hundrað milljónum króna og leynist það því engum hve dýrmætt væri fyrir skipuleggjendur slíks máls að hafa innsýn í eða upplýsingar um eftirlit löggæslustofnana.