Allt að milljón manns hafa sótt um hæli í Þýskalandi á þessu ári.
Þetta sagði kanslarinn í ræðu sinni á samkomu flokks hennar, Kristinna demókrata. Hávær hluti flokksins hefur mótmælt aðgerðum Merkel undanfarnar vikur. Búist var við miklum deilum á fundinum og að andstæðingar hennar myndu jafnvel bregða fyrir hana fæti.
Svo virðist þó ekki hafa farið því samkvæmt frétt Guardian voru einungis tveir af um þúsund fundargestum sem kusu gegn tillögum hennar. Eftir að klukkutímalangri ræðu Merkel lauk stóðu fundargestir upp og klöppuðu fyrir henni í níu mínútur.
Merkel nefndi í ræðu sinni að þeir sem sæki um hæli í Þýskalandi þurfi að virða lög og hefðir Þýskalands og þar að auki læra þýsku. Þá gagnrýndi hún ríkar þjóðir heimsins fyrir að fjármagna hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna ekki nægilega vel og sagði það ófyrirgefanlegt.
Áhugasamir og þeir sem kunna Þýsku, geta horft á ræðu Merkel hér að neðan.