Báðar albönsku fjölskyldurnar sem voru sendar úr landi í nótt höfðu ákveðið að una við ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á hæli og höfðu dregið til baka kærur sínar til kærunefndar útlendingamála.
Sjá einnig: Segir albönsku fjölskylduna ekki hafa getað annað en unað niðurstöðunni
„Fjölskyldurnar óskuðu í kjölfarið eftir flutningi til heimalands,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.
Útlendingastofnun segir að alls hafi 27 einstaklingar verið fluttir af landi brott í morgun í samstarfi ríkislögreglustjóra og Frontex Landamærastofnun Evrópu. Þar af hafi verið fimm fjölskyldur; þrjár frá Makedóníu og tvær frá Albaníu.
Sjá einnig: Lítill drengur með alvarlegan hjartagalla sendur aftur til Albaníu
Stofnunin bendir á að til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd og eiga rétt á hæli þurfi fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu.
„Efnahagslegar aðstæður fela ekki í sér aðsteðjandi hættu, um það eru alþjóðasáttmálar og lög skýr. Því geta slíkar aðstæður ekki verið grundvöllur verndar,“ segir í tilkynningunni.
Stofnunin segir engu að síður að hvert mál sé skoðað.
