Fótbolti

Hólmfríður vildi prófa eitthvað nýtt en svarið var nei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir fær ekki að yfirgefa norska úrvalsdeildarliðið Avaldnes en hún hafði áhuga á því að losna undan síðasta ári samningsins.

Hólmfríður átti mjög gott tímabil með Avaldnes sem náði sínum besta tímabili, varð í 2. sæti í bæði deild og bikar og komst í Meistaradeildina í fyrsta sinn.

Hólmfríður var valin besti sóknarmaður norsku úrvalsdeildarinnar en hún skoraði 15 mörk í 23 leikjum í deild og bikar.

„Ég hafði mikinn áhuga á því að breyta til. Nokkur lið á Íslandi og eitt í Bandaríkjunum sýndu mér áhuga og mér fannst ég þurfa nýja áskorun. Þetta verður fimmta tímabilið mitt hjá Avaldnes og ég hef gengið í gegnum ýmislegt þar, og sumt hefur verið erfitt andlega," sagði Hólmfríður í samtali við Víði Sigurðsson á Morgunblaðinu.

Hólmfríður er 31 árs gömul og spilaði í haust sinn hundraðasta A-landsleik. Hún hefur spilað með Avaldnes frá 2012 en þegar hún byrjaði í liðinu þá lék það í b-deildinni. Nú er Avaldnes aftur á móti orðið eitt besta lið Noregs.

„Ég er búin að taka út pirringinn sem þessu fylgdi og ætla mér að klára þetta síðasta tímabil hjá félaginu með stæl," sagði Hólmfríður í fyrrnefndu viðtali og metnaðurinn hefur ekkert minnkað þrátt fyrir að þurfa að spila áfram með Avaldnes.  „Ég stefni að því að gera betur en áður, og verð tilbúin í það þegar æfingar hefjast 12. Janúar,“ sagði Hólmfríður við Víði.

Auk þess að spila með Avaldnes hefur Hólmfríður einnig leikið með danska liðinu Fortuna Hjørring, sænska liðinu Kristianstads DFF og bandaríska liðinu Philadelphia Independence.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×