Svavar og eiginkona hans, Berglind Häsler, stefna á að hefja framleiðslu á íslensku sveitasnakki úr gulrófum þegar verksmiðjan þeirra er tilbúin en þau eru að breyta gömlu fjósi í verksmiðju og eldhús til framleiðslunnar.
Yfirleitt er lítið um rófur undir lok vetrar en þau ætla að byrja strax í haust að framleiða snakkið úr eigin rófuuppskeru. „Markmiðið er að vera með framleiðslu þar sem við ræktum, framleiðum og pökkum á sama staðnum. Við ætlum að vinna með hráefni sem eru fengin úr jörðinni hér. Svo þegar fram í sækir getum við notað eldhúsið og verksmiðjuna undir hvað sem er, ef við viljum fara að framleiða annað.“

Það er kostnaðarsamt að fara í svona framkvæmdir en Svavar Pétur og Berglind reyna að fjármagna framkvæmdirnar og þróunarvinnuna meðal annars með nýsköpunarstyrkjum, enda um nýsköpun að ræða. Hann segir fjölbreytni nauðsynlega í íslenskan landbúnað. „Við lítum svo á að það séu fjölmörg tækifæri í íslenskum landbúnaði og þetta er okkar framlag,“ útskýrir Svavar Pétur.

Svavar Pétur er líklega best þekktur fyrir að vera forsprakki hljómsveitarinnar Prins Póló, sem átti bestu plötu síðasta árs að mati tónlistarsérfræðinga Fréttablaðsins. Hann hefur einnig í hyggju að byggja hljóðver í Berufirði og er farinn að huga að nýrri tónlist.
Markmið þeirra hjóna er að byggja upp eitt allsherjar menningarmusteri í Berufirði.