Stjórnarandstaðan sá sér ekki fært að mæta á árshátíð Alþingis í gær sem haldin var á Hótel Sögu. Ástæða þess að stjórnarandstaðan sniðgekk veisluna var sú að ríkisstjórnin sniðgekk þingið í Evrópusambandsmálinu.
Árshátíð þingmanna var ekki haldin á síðasta kjörtímabili vegna sparnaðaraðgerða en þessi hefð hefur nú verið endurvakin. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði í gær ekki hægt að neita þingmönnum um þingfund og hundsa vald þingsins, en bjóða síðan í partí um kvöldið.
Heiðursgestur gleðinnar er ávallt forseti Íslands. Spariklæðnaður er áskilinn og mæta þingmenn oftast nær í sínu fínasta pússi til veislunnar. Forseti þings býður til veislunnar og segir í boðinu:
„Að vanda verður mælendaskrá opnuð eftir að sest verður til borðs, en einungis má ávarpa samkomuna í bundnu máli og eftir ævafornum bragarreglum, með höfuðstöfum og stuðlum.“
