Erlent

SÞ hvetja til öflugri aðgerða

guðsteinn bjarnason skrifar
Meira en 500 manns eru taldir hafa verið á bátnum sem hvolfdi, en einungis tókst að bjarga litlum hluta þeirra.
Meira en 500 manns eru taldir hafa verið á bátnum sem hvolfdi, en einungis tókst að bjarga litlum hluta þeirra. nordicphotos/AFP
Óttast var að um 400 manns hefðu drukknað í gær út af ströndum Líbíu þegar skipi hvolfdi þar. Um borð voru hundruð flóttamanna, sem reyndu að komast ólöglega frá Afríku til Ítalíu.

Hundruð þúsunda manna hafa á síðustu árum reynt að komast yfir Miðjarðarhafið á bátum eða skipum í von um að komast inn fyrir landamæri Evrópusambandsins. Fjölmargir hafa látið lífið, þar af meira en 500 það sem af er þessu ári. Þetta er meiri fjöldi en nokkru sinni fyrr.

Federico Fossi, talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir nauðsynlegt að Evrópusambandið grípi til áhrifaríkari aðgerða til að tryggja öryggi fólks sem þarna hættir lífi sínu. Ekkert bendi til þess að í bráð muni draga úr flóttamannastraumnum þessa leið.

„Enn er fólk að flýja styrjaldir og ofsóknir í löndum á borð við Sýrland, eða einræðisstjórnir í löndum á borð við Erítreu,“ segir Fossi í viðtali við breska útvarpið BBC.

Fleiri mannréttindasamtök hafa skorað á Evrópusambandið að efna til markvissra björgunaraðgerða á Miðjarðarhafinu, frekar en að láta sér nægja reglubundið landamæraeftirlit á borð við það sem íslenska varðskipið Týr hefur tekið þátt í undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×