Prinsinn, sem er sonur Salmans konungs Sádi-Arabíu, segir auð sinn verða notaðan til að draga úr fordómum, bæta stöðu kvenna og takast á við náttúruhamfarir auk annars. Alwaleed hefur lengi verið þekktur sem einn helsti talsmaður kvennabaráttu í Sádi-Arabíu.
Þegar Alwaleed tilkynnti um áform sín nefndi hann góðgerðarsjóð Bills og Melindu Gates sem sinn helsta innblástur. Bill Gates tók ákvörðun prinsins fagnandi og sagði hana hvatningu til allra sem vinna góðgerðarstarf í heiminum.
Alwaleed hafði áður látið um 463 milljarða króna renna til sjóðs síns, Alwaleed Philanthropies. Prinsinn gegnir ekki opinberu embætti í Sádi-Arabíu. Hann er stjórnarformaður fjárfestingarsjóðsins Kingdom Holding Company sem á meðal annars hlut í Twitter og Apple. Meðal eigna Alwaleeds má nefna 371 herbergis höll í Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, Boeing 747-400 flugvél og 85 metra snekkju.