Hryðjuverkasamtökin ISIS halda um 3.500 manns sem þræla í Írak. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástandið í landinu.
Stærstur hluti þrælanna eru konur og börn úr hópi Jasída og öðrum minnihlutahópum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig fengið staðfest að ISIS hafi nýlega rænt á milli 800 og 900 börnum í írösku borginni Mosul og flutt á brott til að gera þá að barnahermönnum.
Vígasveitir ISIS hafa komið á ströngum lögum á þeim landsvæðum í Írak og Sýrlandi sem hópurinn ræður yfir og hafa framfylgt þeim, meðal annars með tíðum aftökum á opinberum stöðum.
Sameinuðu þjóðirnar segja ISIS hafa gerst sek um umfangsmikla stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og jafnvel þjóðarmorð.
ISIS-liðar með um 3.500 þræla í Írak
Atli Ísleifsson skrifar
