
Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra, sem svarið byggir meðal annars á, eru í gildi verklagsreglur um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála sem tilkynnt eru lögreglu þar sem kveðið er á um að ef þolandi er fatlaður skuli tilkynna réttindagæslumanni fatlaðs fólks um málið.
Reglurnar kveða einnig á um að í þeim tilvikum þar sem sakborningur eða brotaþoli er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skuli á sama hátt kallaður til kunnáttumaður til aðstoðar, eins og það er orðað í svarinu.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara var haldinn sérstakur fræðslufundur með öllum ákærendum í apríl á síðasta ári þar sem fjallað var um skýrslutökur af viðkvæmum vitnum og sakborningum. Þar var meðal annars fjallað um þau atriði sem hafa ber í huga þegar rannsókn hefst og fyrir liggur að sakborningur eða brotaþoli er með þroskaskerðingu.
„Sérstaklega var farið yfir ákvæði laga um tilhögun skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, enda skiptir mjög miklu að vandað sé til verka þegar teknar eru skýrslur í málum sem þessum,“ segir í svarinu.