Körfubolti

Jón Arnór missti af fjórða leiknum í röð | Valencia 27-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/EPA
Bakmeiðsli Jóns Arnórs frá því um áramótin ætla að há kappanum langt fram í janúar en hann missti af leik Valencia og þýska liðsins EWE Baskets Oldenburg í Evrópukeppninni í kvöld.

Valencia vann þá 19 stiga útisigur á EWE Baskets Oldenburg, 108-89, en spænska liðið var átta stigum yfir í hálfleik, 54-46.

Jón Arnór Stefánsson hefur nú misst af fjórum síðustu leikjum liðsins. Hann meiddist í sigurleik á Kanaríeyjum milli jóla og nýárs og hefur nú misst af tveimur deildarleikjum og tveimur Evrópuleikjum.

Sigurganga Valencia hefur haldið áfram án íslenska landsliðsmannsins en sigurinn í kvöld var 27. sigurleikur liðsins í röð í deild og Evrópukeppni.

Frakkinn Antoine Diot var stigahæstur hjá Valencia með 25 stig en hann gaf einnig átta stoðsendingar og hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum.

Valencia-liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlakeppni 32 liða úrslitunum en efstu tvö liðin úr þessum fjögurra liða riðli komast í átta liða úrslit keppninnar.

Þjóðverjarnir voru búnir að vinna níu stiga sigur á franska liðinu Limoges í fyrsta leik á sama tíma og Valencia vann 16 stiga sigur á PAOK frá Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×