Tökur á áttundu Stjörnustríðsmyndinni munu fara fram hér á landi. Þetta er fullyrt á vefnum Vulture þar sem óútkomnar Star Wars-myndir eru til umfjöllunar. Tökur vegna sjöundu myndarinnar, The Force Awakens, fóru fram hér á landi og þá var einnig myndin Star Wars: Rogue One tekin upp á Íslandi síðasta haust.
Sú mynd gerist í raun áður en gömlu myndirnar komu út (Á milli Episode III og Episode IV) og fjallar um hóp uppreisnarmanna sem stela teikningunum að Helstirninu. Samkvæmt Vulture snúa lang flestir þeirra sem léku í The Force Awakens aftur í áttundu myndinni, þar á meðal Daisy Ridley, John Boyega, Oscar Isaac, Gwendoline Christie, Mark Hamill, Carrie Fisher og Adam Driver. Þá hefur Benicio Del Toro verið staðfestur í hlutverki illmennis í þessari mynd.
Ásamt því að vera tekin upp á Íslandi fara tökur einnig fram á eyjunni Skellig Michael undir suðurströnd Írlands og í Pinwood-myndverinu í Lundúnum.
