Fótbolti

Viðar Örn samdi við Malmö til þriggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn Kjartansson fer frá Kína til Svíþjóðar.
Viðar Örn Kjartansson fer frá Kína til Svíþjóðar. mynd/mff
Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í fótbolta, samdi í dag við sænska úrvalsdeildarliðið Malmö til þriggja ára, en nú stendur yfir fréttamannafundur þar sem verið er að kynna hann til leiks.

Malmö kaupir Viðar Örn frá kínverska félaginu Jiangsu Sainty sem hann var samningsbundinn í eitt ár til viðbótar. Viðar skoraði níu mörk í 22 leikjum fyrir kínverska liðið og varð bikarmeistari á síðustu leiktíð ásamt Sölva Geir Ottesen.

Sænska blaðið Expressen greindi frá því síðastliðinn föstudag að Malmö væri búið að leggja inn kauptilboð í Selfyssinginn, en hann var einnig orðaður við danska félagið AGF í Árósum.

Hjá Malmö verður Viðar Örn samherji Kára Árnasonar sem kom til félagsins síðastliðið sumar frá Rotherham á Englandi, en þeir eru einnig samherjar í íslenska landsliðinu.

Viðar Örn, sem sló í gegn með Fylki í Pepsi-deildinni 2013, þekkir ágætlega til á Norðurlöndum. Hann varð markakóngur í norsku úrvalsdeildinni 2014 þegar hann skoraði 25 mörk í 29 leikjum.

Malmö er eitt allra stærsta félagið á Norðurlöndum í dag, en það komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar undanfarin tvö ár. Malmö varð síðast Svíþjóðarmeistari 2014, en það hefur unnið titilinn þrisvar sinnum á síðustu fimm árum og 18 sinnum í heildina.

Viðar Örn, sem er uppalinn á Selfossi, á að baki átta leiki með íslenska A-landsliðinu. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á dögunum í 2-1 tapi gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×