Myndir af þessum tilkynningum hafa meðal annars verið birtar á Facebookhópnum Bakland ferðaþjónustunnar, þar sem virk umræða er um málefni sem snúa að ferðaþjónustu. Þar er eru margir á varðbergi ef einhverjir í ferðaþjónustunni reyna að hafa fé af ferðamönnum með vafasömum aðferðum, enda er mikið í húfi: Orðsporið skiptir öllu í þeim viðkvæma geira.
Þar furða menn sig á þessu, því á Íslandi stæra menn sig af því að kranavatnið hér sé eins og best verður á kosið, drykkjarvatn í hæsta gæðaflokki streymir um vel flesta krana. Er þetta eitt helsta stolt Íslendinga. En, ekki á Skólavörðustígnum, að því er virðist. Margir sem tjá sig á Baklandinu telja þetta hina mestu ósvífni en þar er jafnframt bent á að rétt sé að láta þá sem að hótelinu standa njóta vafans; hugsanlega sé um bilaðar lagnir að ræða?

„Atvinnulífið treystir á að við útvegum því ferskt og gott vatn og við leggjum okkur fram um að gera það. Við fengum sendar þessar myndir teknar á hóteli á Skólavörðuholtinu. Öll 100 sýnin sem tekin voru til rannsókna úr vatnsveitunni okkar í Reykjavík árið 2015 voru pottþétt. Þess vegna er engin ástæða til að vara við kranavatninu nema eitthvað sé bilað innanhúss. -Hvað ætli sé bilað?“
Vísir reyndi að ná sambandi við hótelstjórann Ragnar Guðmundsson í gær, en hann er staddur í útlöndum. Var blaðamanni bent á að senda á hann tölvupóst, og var það gert síðdegis í leit að skýringum; hvort drykkjarvatnið úr krönum Hótel Adam væri sérstaklega slæmt; en engin svör hafa borist.