Snæfellskonur tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins í Laugardalshöllinni um síðustu helgi og þar vó þungt hittni tveggja leikmanna liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna.
Snæfell vann Grindavík 78-70 í bikarúrslitaleiknum og voru þær Haiden Denise Palmer og Gunnhildur Gunnarsdóttir báðar með 23 stig í leiknum.
Það var þó þriggja stiga nýting þeirra sem fór í sögubækurnar en báðar hittu þær úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum sem þýðir 62 prósent nýtingu.
Með því að skora fimm þrista í leiknum þá jöfnuðu þær Haiden og Gunnhildur metið yfir flestar þriggja stiga körfur í bikarúrslitaleik kvenna.
Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði alla fimm þriggja stiga körfur sínar í fyrri hálfleiknum sem er að sjálfsögðu einnig met.
Keflvíkingurinn Björg Hafsteinsdóttir varð fyrst til að skora fimm þrista í sama bikarúrslitaleiknum en hún náði því árið 1993 og átti metið ein í fimmtán ár.
Gunnhildur var aðeins önnur íslenska körfuboltakonan til þess að komast í þennan flokk en bandarískir leikmenn höfðu náð þessu þrisvar sinnum á undanförnum árum.
Það sem er athyglisverðast er að tveir leikmenn úr saman liði nái þessu. Snæfell skoraði samtals tíu þrista í leiknum og enginn annar leikmaður liðsins náð því að hitta úr skoti fyrir utan þriggja stiga línuna.
Snæfell varð fyrsta kvennaliðið til að skora tíu þriggja stiga körfur í einum bikarúrslitaleik en liðið bætti met Njarðvíkurliðsins frá 2012 sem skoraði þá níu þriggja stiga körfur í sigri á Snæfelli.
Flestar þriggja stiga körfur í bikarúrslitaleik kvenna:
5 - Björg Hafsteinsdóttir
(fyrir Keflavík á móti KR 1993, sigur)
[Nýtti 5 af 10 skotum , 50 prósent]
5 - Joanna Skiba
(fyrir Grindavík á móti Haukum 2008, sigur)
[Nýtti 5 af 8 skotum , 63 prósent]
5 - Heather Ezell
(fyrir Hauka á móti Keflavík 2010, sigur)
[Nýtti 5 af 17 skotum , 29 prósent]
5 - Chazny Paige Morris
(fyrir KR á móti Keflavík 2011, tap)
[Nýtti 5 af 9 skotum , 56 prósent]
5 - Gunnhildur Gunnarsdóttir
(fyrir Snæfell á móti Grindavík 2016, sigur)
[Nýtti 5 af 8 skotum , 63 prósent]
5 - Haiden Denise Palmer
(fyrir Snæfell á móti Grindavík 2016, sigur)
[Nýtti 5 af 8 skotum , 63 prósent]
Tvær Snæfellskonur jöfnuðu þriggja stiga metið í sama bikarúrslitaleiknum

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Snæfell - Grindavík 78-70 | Bikarinn í Hólminn í fyrsta sinn
Snæfell varð í dag bikarmeistari eftir sigur á Grindavík í úrslitaleik.

Ingi Þór: Allir einbeittir og hungraðir í að sækja þennan titil
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sagði að Snæfellshjartað hefði skilað sigrinum á Grindavík í bikarúrslitunum í dag.