Fótbolti

Hefndarhugur í Zlatan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið á Stamford Bridge í fyrra.
Zlatan gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið á Stamford Bridge í fyrra. Vísir/Getty
Meistaradeild Evrópu fer aftur af stað á morgun en þá hefjast 16-liða úrslitin. Stórliðin PSG og Chelsea mætast í fyrri viðureign sinni í París en þessi sömu lið mættust einnig í 16-liða úrslitunum í fyrra.

PSG hafði þá betur á útivallamarkareglunni þrátt fyrir að hafa spilað stóran hluta af síðari leiknum, sem fór fram í London, manni færri eftir að Zlatan Ibrahiomvic fékk að líta rauða spjaldið fyrir tæklingu á Oscar.

„Ibrahimovic vill ná fram hefndum gegn leikmönnum Chelsea eftir rauða spjaldið í fyrra,“ sagði Thibaut Courtois, markvörður enska liðsins, við franska fjölmiðla í gær.

„En það sama á við um okkur hjá Chelsea. Við viljum hefna ófaranna í fyrra. Við viljum vinna í ár. Það væri óásættanlegt fyrir bæði félög að falla úr leik núna.“

„Bæði lið vilja fara langt í Meistaradeildinni og við vitum að París er með gríðarlega sterkt lið. Þetta verður ekki auðvelt.“

Chelsea er í tólfta sæti í ensku úrvalsdeildinni og á því tæpast möguleika á því að ná einu af fjórum efstu sætunum sem tryggir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Sigur í Meistaradeild Evrópu í vor myndi þó tryggja liðinu áframhaldandi þátttöku í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×