Tala látinna í árásunum í Írak í dag er komin upp í 70. Fólkið lét lífið í tveimur sjálfsmorðsárásum í úthverfi Bagdad í Írak. Árásirnar voru gerðar af vígamönnum Íslamska ríkisins, sem óku mótorhjólum inn í þvögur manna á markaði í bænum Sadr. Vígamenn ISIS réðust á úthverfið Abu Ghraib í dag.
Sautján úr öryggissveitum Írak féllu í átökunum.
Íraski herinn hefur sótt fram gegn ISIS víða í Írak og undirbýr nú árás á borgina Mosul, sem hefur verið í haldi vígamanna í tæp tvö ár. Samtökin gera þó reglulega árásir víða um Írak.
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak, segir árásirnar sýna að ISIS séu á hælunum. Þeir geti ekki lengur ráðist á hermenn og því ráðist þeir á óbreytta borgara. Samkvæmt Reuters fréttaveitunni er enn barist í Abu Ghraib.
