Körfubolti

Annað tap Valencia kom gegn Real Madrid

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu.
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia þurftu að sætta sig við svekkjandi tap gegn stórveldinu Real Madrid í dag 94-95 en Real Madrid stal sigrinum á lokamínútum leiksins.

Valencia hefur komið nokkuð á óvart í vetur en liðið vann fyrstu sextán leiki tímabilsins og sautján af fyrstu átján leikjum liðsins.

Valencia var mun sterkari aðilinn allan leikinn og leiddi allt frá fyrstu mínútu en leikmenn Real Madrid voru aldrei langt undan.

Valencia leiddi með níu stigum fyrir lokaleikhlutann og hélt því forskoti í upphafi fjórða leikhluta en leikmenn Real Madrid áttu góða rispu á lokamínútunum og náðu að stela sigrinum.

Var það aðeins í annað skiptið sem Real Madrid leiddi í leiknum en liðið setti fyrstu körfu leiksins og stal síðan sigrinum með lokakörfu leiksins.

Grátlegt tap niðurstaðan en Barcelona getur komist upp að hlið Valencia með sigri í leik liðsins gegn CAI Zaragoza sem liðið á inni.

Jón Arnór lauk leiknum með 5 stig og eina villu en hann lék í rúmlega ellefu mínútur í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×