Sextán ára stúlku frá vesturhluta Svíþjóðar hefur verið bjargað frá liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS í Írak.
Reuters greinir frá því að stúlkunni hafi verið bjargað þann 17. febrúar í áhlaupi öryggissveita Kúrda, en þetta er haft eftir talsmanni kúrdískra öryggisyfirvalda.
Sænsk yfirvöld og fjölskylda stúlkunnar eiga að hafa beðið um aðstoð öryggissveita Kúrda vegna hvarfs stúlkunnar.
Stúlkan á að hafa ferðast frá Svíþjóð til Sýrlands á síðasta ári og þaðan haldið yfir landamærin til Íraks. Stúlkunni var bjargað nærri borginni Mosul, næststærstu borg Íraks, þar sem liðsmenn ISIS ráða nú ríkjum. Sænskur ISIS-liði á að hafa gabbað stúlkuna til Sýrlands.
Í frétt SVT kemur fram að sænska utanríkisráðuneytið hafi enn ekki viljað tjá sig um fréttirnar.
