Hæstiréttur hefur fellt úr gildi frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli hóps erfingja jarðarinnar Vatnsenda við Elliðavatn gegn Kópavogsbæ vegna eignarnáms á Vatnsenda. Þarf Héraðsdómur að taka málið til efnismeðferðar að nýju.
Máli erfingjanna á Vatnsenda gegn Kópavogsbæ var vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjaness í janúar vegna vanreifunar. Taldi Héraðsdómur að erfingjarnir hefðu ekki gert grein fyrir því hvað fælist í beinum eignarétt að Vatnsenda og því ómögulegt að komast að því hvort að Kópavogsbær væri bótaskyldur.
Hefur Hæstiréttur fellt úr gildi þennan frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjaness. Segir í dómi Hæstaréttar að kröfur erfingjanna á hendur Kópavogsbæ séu svo skýrar og málatilbúnaður svo glöggur að öðru leyti að ekkert sé því til fyrirstöðu að dómur verði á þær lagðar. Leggur Hæstiréttur það því fyrir Héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Málaferlin þessi hófust eftir að Hæstiréttur komst í mars síðastliðnum að þeirri niðurstöðu að ráðstafa skyldi beinum eignarrétti til fimmtán erfingja Sigurðar Hjaltested, en ekki sonarsonar hans, Þorsteins Hjaltested. Hann fékk milljarða frá Kópavogsbæ í bætur, eftir að bærinn tók hluta jarðarinnar eignarnámi.
Málið á sér langan aðdraganda, en deilur um jörðina hafa nú staðið yfir í nærri fimmtíu ár. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi, ekki síst vegna þess að jörðin er eitt helsta byggingarland Kópavogsbæjar.