Ítalskir verkfræðingar sem hafa verið ráðnir til að koma í veg fyrir að Mosul-stífla í Írak bresti segjast þurfa tvo mánuði til að rannsaka ástand stíflunnar. Ekki er hægt að ráðast í framkvæmdir fyrr en að rannsókn lokinni.
Talsmaður íraskra yfirvalda segja verkfræðingana þurfa að flytja sérstakan búnað til landsins til að fylla í þær sprungur sem hafa myndast vegna rofs.
Stíflan var byggð á níunda áratugnum og þykir í meira lagi óstöðug. Þörf er á stöðugum viðgerðum til að koma í veg fyrir stórslys.
Sendiráð Bandaríkjanna í Írak varaði nýlega við að mörg hundruð þúsund manns eiga á hættu á að láta lífið, bresti stíflan.
Ítölsk stjórnvöld hafa heitið því að senda 450 hermenn á vettvang til að verja þá starfsmenn sem munu vinna að viðgerðum á stíflunni en vígasveitir ISIS ráða yfir svæðum nærri henni.
