Innlent

Vélsleðar fram af hengju við Jarlhettur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Tilkynning barst í dag til Neyðarlínunnar í dag um að vélsleðar hefðu farið fram af hengju í dag við Jarlhettur á hálendinu. Um er að ræða þrjá sleða og voru tveir á hverjum. Fjórir slösuðust við að fara fram af hengjunni og voru flutt til móts við viðbragðsaðila á jeppum.

Þeir slösuðu eru komnir til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkrabíla og er verið að meta stöðuna, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu. Starfi björgunarsveitanna mun ljúka þar með. Ekki liggur fyrir hvort einhverjir verði fluttir með þyrlunni til aðhlynningar.

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þá er sjúkralið og lögregla einnig á leið á staðinn.

Uppfært kl. 17.42

Fjórir erlendir ferðamenn slösuðust eftir að hafa farið fram af hengju í dag við Jarlhettur á hálendinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti þrjá þeirra slösuðu á Landspítalann á Fossvogi, eru þeir minna slasaðir en talið var í fyrstu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi voru ferðamennirnir í ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis þegar slysið varð. 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×