Það varð hins vegar stutt gaman hjá kappanum. Eins og sést á meðfylgjandi myndbandi meiddist Bonneau á hægri fæti, svo mikið að hann treysti sér ekki til að stíga í löppina. Hann valhoppaði svo beinustu leið út af og í búningsklefann.
Bonneau sleit hásin á æfingu áður en tímabilið hófst í haust en endurhæfingin hefur gengið vel hjá honum og hefur hann verið á skýrslu í síðustu tveimur leikjum Njarðvíkur.
Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, greindi svo frá því að Bonneau myndi spila sínar fyrstu mínútur með liðinu í kvöld, sem og hann gerði.
Sjá einnig: Teitur segir að Bonneau spili í Ljónagryfjunni í kvöld
„Oddur bað hann um smá hjálp og Stefan fannst gott að heyra það. Ég geri ráð fyrir því að hann hvíli Odd í kvöld þegar þurfa þykir," sagði Teitur Örlygsson í samtali við karfan.is.
Bonneau var búinn að spila í þrjár mínútur og 37 sekúndur þegar hann haltraði af velli þegar rúmar sex mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Þegar þetta er ritað er óljóst hvort að hann spili meira í leiknum en útlitið er ekki gott.
Bonneau náði ekki að skora á þessum tíma en hann tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.
Leiknum er lýst beint á íþróttavef Vísis en hann verður svo gerður upp í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport sem er að þessu sinni sent út frá Þorlákshöfn, þar sem heimamenn í Þór spila við Njarðvík.
Bonneau valhoppar inn í klefa. Vonum að þetta sé ekki alvarlegt. Atkinson kemur aftur inn á.
— Njarðvík - Stjarnan (@Visirkarfa1) March 21, 2016