Lögfræðingurinn og ferðaþjónustubóndinn Arndís Soffía Sigurðardóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.
Uppfært 15.03. Svo virðist sem fréttastofa hafi hlaupið síðbúinn apríl. Framboðstilkynning Arndísar er liður í gæsun hennar. Beðist er afsökunar á þessu.
Á Facebook-síðu framboðsins kemur fram að Arndís sé fædd 6. júní 1978 og hún sé uppalin í Fljótshlíðinni. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni, lauk námi í Lögregluskólanum og fór þaðan í lagadeild Háskóla Íslands. Í dag starfar hún sem fulltrúi hjá sýslumanninum á Suðurlandi.
Á síðasta kjörtímabili tók Arndís reglulega sæti á Alþingi en þá var hún varaþingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Þá var hún formaður starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.
Arndís er gift Ívari Þormarssyni sem er sagður „snilldarkokkur ásamt því að vera hæfileikaríkur leikari, söngvari og trommuleikari.“ Þau hjónin stefna að því að koma á fjárrækt á Bessastöðum og bjóða erlendum þjóðhöfðingjum upp á „veglegar veislur“ og bjóða þá upp á hráefni beint frá býlum á Suðurlandi.
Forsetaframbjóðendurnir eru nú þrettán talsins en í dag upplýsti Þorgrímur Þráinsson um að hann væri hættur við sitt framboð.
