Lögregluyfirvöld í Brussel hafa handtekið Mohamed Abrini en hann var sá eini sem enn var leitað að í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember á seinasta ári.
Samkvæmt belgískum fjölmiðlum er einnig talið líklegt að Abrini sé „maðurinn með hattinn“ sem sást í öryggismyndvélum í brottfararsal Zaventem-flugvallarins í Brussel þegar sprengjur sprungu þar þann 22. mars síðastliðinn. Alls létust hundrað og þrjátíu í árásunum í París, og þrjátíu og tveir í árásunum í Brussel.
Að því er fram kemur á vef BBC hefur ríkissaksóknarinn í Belgíu aðeins staðfest „að nokkrir hafi verið handteknir í tengslum við hryðjuverkin á flugvellinum og lestarstöðinni,“ en ekki hafa verið veittar aðrar upplýsingar.
Talið er að Abrini, sem hefur verið á flótta í um fimm mánuði, hafi verið handtekinn í Anderlecht hverfinu í Brussel.

