Innlent

Stór stund á Selfossflugvelli – Ný flugvél frá Tékklandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Vélin sem er splunkuný flaug nokkra útsýnishringi yfir Selfossflugvöll áður en henni var lent.
Vélin sem er splunkuný flaug nokkra útsýnishringi yfir Selfossflugvöll áður en henni var lent. Vísir/Magnús Hlynur
Flugfélagið Arctic Wings á Selfossi hefur fest kaup á nýrri flugvél frá Tékklandi. Um er að ræða sex sæta flugvél með lúxus innréttingum og verður hún notuð í ferðamennsku. Flugvélinni var lent á Selfossi í dag.

„Við vorum að fá til landsins fyrstu vélina okkar sem kemur frá Tékklandi en þaðan var flogið til Hollands í gær. Í dag var vélinni flogið frá Hollandi til Skotlands og þaðan til Íslands og vélin lenti á Selfossflugvelli um kl. 18:30 við fögnuð viðstaddra sem klöppuðu vel og lengi þegar vélin renndi í hlað að flugskýlinu,“ segir Kristján Bergsteinsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Arctic Wings á Selfossi.

Vélin er sex sæta með lúxus innréttingum og glæsileg í alla staði.

„Þessi vél verður notuð í upplifunarferðir fyrir ferðamenn og þau leiguverkefni sem koma inn. Dæmi um ferðir eru á Ísafjörð, til Grímseyjar og Vestmannaeyja. Við vinnum þessar ferðir í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki á þessum stöðum. Nú þegar eru komnar nokkrar pantanir fyrir vorið og sumarið þannig að reksturinn leggst mjög vel í okkur,“ bætir Kristján við.

að voru þeir Valdimar Ó Jónasson (t.v.)og Kari Gudbjornsson sem flugu vélinni heim. Þeir fengu blómvönd frá Flugklúbbi Selfossi um leið og þeir voru boðnir velkomnir heim.Vísir/Magnús Hlynur
Kristján framkvæmdastjóri nýja flugfélagsins á Selfossi mátaði sig strax við stýri nýju flugvélarinnar. Hann segir að félagið munu bjóða upp á lúxus pakka fyrir ferðamenn.Vísir/Magnús Hlynur
Fjölmenni mætti á Selfossflugvöll til að taka á móti nýju vélinni.Vísir/MAgnús Hlynur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×